Hlúðu að sjálfum þér

fyrir foreldra langveikra barna

 

Mikið umönnunarálag getur fylgt því að eiga langveikt barn. Langflestir foreldrar sinna þessu hlutverki sínu af alúð og með glöðu geði. Þeir reyna gera allt sem þeir mögulega geta fyrir börnin sín, á allan þann hátt sem hægt er. Það getur valdið miklu álagi bæði andlega og líkamlega og verið erfiðara en allt sem foreldrar hafa áður reynt.

 

Það sem foreldrar standa frammi fyrir

Þegar barnið þitt er alvarlega veikt, getur foreldrum liðið þannig að þeim finnist sem öll veröldin hvíli á herðum þeirra. Það geta verið svo margir sem þarfnast þeirra, þar má nefna veika barnið, hin börnin, makinn og jafnvel vinnustaðurinn.

Það eru takmörk fyrir því, hvað þú sem foreldri getur gefið mikið af þér áður en þér finnst þú vera andlega, líkamlega og tilfinningalega tæmdur. Þess vegna er það nauðsynlegt – ekki lúxus – að eyða tíma í að hugsa um sjálfan sig svo þú getir hlaðið batteríin og endurhlaðið þig, til að halda áfram að styðja og annast barnið þitt eins og best verður á kosið.

 

Góð ráð til umönnunaraðila

Margar þessar ábendingar er auðveldara að segja en að fylgja eftir í fyrstu og ef til vill gætu einhverjar þeirra hreinlega virst fráleitar. En þegar til lengri tíma er litið, þá er vert að hafa í huga þá gullnu öryggisreglu að betra er að setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfan sig, áður en hafist er handa við að bjarga öðrum.

 

Pásur

Það er mjög nauðsynlegt að skipuleggja einhvern tíma í hverri í viku, jafnvel þó ekki sé nema klukkustund eða tvær, til að komast í burtu meðan fjölskyldumeðlimur, vinur, heilbrigðisstarfsfólk eða annar stuðningsaðili annast barnið þitt. Þegar þú ferð í burtu þá er það þinn tími svo ekki hafa samviskubit yfir því hvernig þú eyðir honum. Fáðu þér blund, lestu bók, farðu á kaffihús, farðu í líkamsrækt, farðu að versla eða framkvæmdu hvað sem er til að þú getir tæmt hugann. Á meðan þú ert í burtu mun barnið þitt líklegast njóta þess að hafa einhvern annan til að tala við og meiri líkur eru á að þú sért endurnærist sem foreldri þegar þú kemur til baka.

 

Matarræði

Það þarf engan að undra að óhófleg neysla kaffi- eða gosdrykkja, að borða óreglulega og óhollt verður til þess að foreldrar verða þreyttir og úrvinda. Þegar þú veist það fyrirfram að þú verður mikið á ferðinni, hafðu þá með þér næringarríkt nesti eða eitthvað til þess að narta í. Til dæmis ávexti, grænmeti, næringarríka orkubita, þurrkaða ávexti, hollar samlokur eða hnetur/möndlur. Þegar á spítaladvöl stendur og ef vinir eða ættingjar bjóðast til þess að elda eða kaupa hollan og góðan mat fyrir ykkur, ekki hika við að þiggja það.

 

Hreyfing

Hvort sem þú ferð í rösklegan göngutúr, út að hjóla, í jóga eða eitthvað allt annað hefur hreyfing góð jákvæð áhrif á hugann, eykur orku og bæti svefn. Þó það séu ekki nema 20 mínútur daglega geta þær gert gæfumuninn.

 

Skipulagning

Haltu öllum upplýsingum í sambandi við veikindi barnsins á ákveðnum stað, þar á meðal lyf og lyfjatímar, allt í sambandi við næringu barnsins og mikilvæg símanúmer. Þegar vakna hjá þér spurningar fyrir lækninn ykkar eða aðra aðila sem annast barnið skrifaðu þær strax niður í minnisbók svo þær gleymist ekki.

 

Að biðja um hjálp

Vinir ykkar og fjölskylda vilja líklegast hjálpa ykkur en vita jafnvel ekki hvernig þau eiga að bera sig að, ef einhver býðst til þess að hjálpa ykkur – og þið þarfnist þess – látið vita! Litlir hlutir eins og að útrétta, þvo þvottinn, fara í matvörubúð eða bara hlusta á þig/ykkur tala um daginn og veginn er ekki einungis gott fyrir ykkur heldur getur látið þá sem standa ykkur næst finnast þeir mikilvægir.

 

Að nýta sér stuðningshópa

Spyrjið lækni barnsins, hjúkrunarfræðing, félagsráðgjafa eða aðra aðila sem koma að umönnun ykkar og barnsins um stuðningshópa og/eða foreldrafélög fyrir ykkur.

Leiðarljós býður upp á reglulega fundi fyrir foreldra og eru allir velkomnir á þá fundi.

Mikilvægt er að komast yfir tilfinninguna um að vera einangraður með því að leita til annarra sem hafa verið í svipuðum aðstæðum og þið sjálf sem foreldri. Ef þér finnst þægilegra eða auðveldara að tjá þig nafnlaust um málefni barnsins þíns er hægt að finna stuðningshópa á netinu.

 

Taktu mark á tilfinningum þínum

Barnið ykkar er veikt – skiljanlega getið þið fundið fyrir reiði og pirring og inn á milli koma dagar þar sem þið óskið þess að þurfa ekki að takast á við þetta allt. Gerir þetta ykkur að slæmum foreldrum? Nei, þetta gerir ykkur mannleg. Sættið ykkur við þessar neikvæðu tilfinningar og þær sársaukafullu staðreyndir að það skiptir ekki máli hversu miklum tíma og hve mikil orka fer í umönnun barnsins, þið getur aldrei verið algjörlega við stjórnvölinn þegar kemur að heilsu og andlegri líðan barnsins ykkar.

 

Verið meðvituð um einkenni of mikils umönnunarálags. Of mikið umönnunarálag er líkamleg og andleg örmögnun umönnunaraðila. Auknar líkur eru á þessu ástandi ef umönnunaraðili reynir að gera allt sjálfur án þess að fá þá hjálp eða hvíld sem hann þarf. Umönnunaraðilar eru yfirleitt á sjálfsstýringu og vanalega ekki fljótir að þekkja of mikið umönnunarálag hjá sjálfum sér. Annað fólk gæti tekið eftir auknum einkennum í fyrstu, sem geta verið til dæmis breytingar á matarvenjum og matarlyst, svefnvenjum, félagsleg einangrun, aukinn kvíði og tilfinningasveiflur allt frá gráti og pirring í tómleika og afskiptaleysi. Takið því alvarlega ef einhver sem þú treystir tekur eftir þessum breytingum í fari þínu.

 

Að fá aðstoð

Ef þið teljið ykkur hafa einhver af þessum einkennum of mikils umönnunarálags, eins og þunglyndi, kvíða og önnur einkenni sem nefnd voru hér að ofan, hafið þá samband við starfsfólk Leiðarljóss sem mun leita leiða með þér til að létta á álaginu og vísa þér áfram til þeirra aðila sem sérhæfa sig í að bæta andlega líðan fólks.

Þið gætuð jafnframt haft þörf fyrir að taka ykkur tímabundið frí frá umönnun barnsins með því að nýta hvíldarinnlagnir eða skammtímavistanir. Einnig gætu lyf við kvíða og þunglyndi verið möguleiki.

 

Að lokum, mundu að þið eruð ekki ofurhetjur, þið eruð foreldrar að gera ykkar besta í erfiðum aðstæðum. Gefið barninu tíma ykkar, hvatningu, athygli og ótakmarkaða ást. Verið bara viss um að geyma eitthvað eftir handa ykkur sjálfum.

 

Heimild:

Þýtt frá

http://kidshealth.org/parent/system/ill/caregivers.html?tracking=P_RelatedArticle