Leiðbeiningar til foreldra

Neðanrás er með algengustu fæðingargöllum drengja.  Talið er að um það bil 0,3% af sveinbörnum fæðast með þennan galla.

Oftast er þessi galli lagaður áður en drengurinn byrjar í grunnskóla.  Tilgangurinn með aðgerðinni er að lengja þvagrásina og lagfæra útlit ytri kynfæra og gera drengjum þar með kleift að pissa standandi með eðlilegri bunu og njóta eðlilegs kynlífs síðar meir.

Þessi fæðingargalli hefur hvorki áhrif á blöðruhálsinn né þvagblöðruna, því er þvagleki ekki algengt vandamál hjá þessum drengjum.

Orsakir

Engin ein orsök er þekkt.  Kenningar eru til um aukna tíðni vegna aukins magns af hormóninu estrogeni í umhverfinu og fæðu. Í 8-14 % tilfella er um að ræða erfðir, þar sem faðir eða systkin hafa einnig fæðst með þennan galla.

Einkenni

Þvagrás drengsins er of stutt og kemur því þvagrásaropið út á röngum stað neðanvert á typpinu.  Þvagrásin myndast ofanfrá og fram og þess vegna getur gallinn verið mjög hátt þ.e. ofan við rótina á pungnum og allt fram á enda typpisins.  Lang oftast er gallinn takmarkaður við fremsta hlutann en forhúðin er nánast alltaf klofin líka og getur verið eini sýnilegi gallinn.

Greining

Algengast er að gallinn greinist í líkamsskoðun eftir fæðingu.  Þó er undantekning þar á ef þvagrásaropið er rétt neðan við eðlilega staðsetningu. Í þeim tilfellum getur tekið upp undir 1-2 ár að greina gallann.

Skurðaðgerðin

Aðgerðin er gerð á skurðstofu og er drengurinn svæfður á meðan. Tími aðgerðarinnar fer eftir alvarleika gallans en tekur oftast um 1-2 klst.

Ef gallinn er mikill þarf oft tvær aðgerðir til að lagfæra hann. Í þeim tilvikum sem gallinn er hátt uppi á þvagrásinni (og raunar stundum líka á þeim vægari) eru bandvefsstrengir inni í typpinu sem beygja það fram á við.  Í þeim tilvikum þarf oft fleiri aðgerðir til að fá typpið fyrst beint (upprétting) áður en tekið er til við að gera endanlega aðgerð með framlengingu á þvagrásinni sjálfri.

 

Meðferð á deild eftir skurðaðgerð

Eftir aðgerðina þarf drengurinn að vera rúmliggjandi í 10 daga. Typpið er vafið í þrýstingsumbúðir. Þessar þrýstingsumbúðir eiga að minnka þá bjúgmyndun sem verður eftir aðgerðina og til sárið fái að gróa rétt. Rúmlegan er mikilvæg svo að ekki komi rót á þessar umbúðir. Til að sæng liggi ekki á umbúðunum er hún látin liggja á grind (bragga) sem sett er á rúmið.

Þvaglegg er komið fyrir í þvagrásinni í aðgerðinni, sem heldur “nýju framlengingunni” á þvagrásinni opinni, ásamt því að tryggja þvagflæði á meðan gróandinn á sér stað. Í sumum tilvikum er þvagleggurinn settur gegnum kviðvegginn framanvert beint inn á blöðruna og hún tæmd þá leiðina.  Þessi aðferð er ekki á nokkurn hátt verri fyrir drenginn og þeir finna jafnvel minna fyrir þessu en venjulegum þvagleggjum. Þetta er einungis notað þegar ekki má vera neitt í þvagrásinni meðan sárin gróa.

Verkjalyf eru gefin reglulega eftir aðgerðina svo að sársaukinn í skurðsvæðinu verði sem allra minnstur. Í sumum tilfellum finna drengir fyrir samdráttarverkjum í þvagblöðrunni. Þessi tilfinning stafar af ertingu í blöðruvegg vegna þvagleggsins sem lýsa sér eins og mikil þvaglátsþörf. Sérstök verkjalyf eru þá gefin reglulega sem lina þessa verki.

Vökvagjöf í æð er gefið fyrsta daginn eftir aðgerð í gegnum grannan plastlegg sem er í handabakinu, til að viðhalda góðu flæði um þvaglegginn. Um leið og drengurinn byrjar að drekka má taka plastnálina og vökvann.  Þá er mikilvægt að drengurinn drekki vel.

Sýklalyf eru gefin þrisvar á dag, til að fyrirbyggja þvagfærasýkingu vegna þvagleggsins. Fyrst eftir aðgerðina, áður en drengurinn er byrjaður að borða fær hann sýklalyf um æð. Fljótlega fær hann sýklalyf í formi mixtúru. Gott er að gefa drengnum AB mjólk eða Lgg+ til að viðhalda þarmaflórunni.

Hægðir.  Vegna rúmlegunnar hægist á þarmahreyfingunum og því getur hægðalosun verið treg. Í sumum tilfellum þarf að gefa mixtúru einu sinni á dag sem eykur þarmahreyfingarnar og mýkir hægðirnar þannig að hægðalosunin verður auðveldari.  Ef drengurinn hefur sögu um harðar hægðir er ráðlagt að gefa drengnum mixtúru til fyrirbyggingar.

 

Undirbúningur fyrir heimferð: Útskriftardagur

Ef foreldrar treysta sér heim með drenginn, fá þau að fara heim á 2-3 degi eftir aðgerð. En drengurinn er þá ennþá með umbúðir og þvaglegg. Hjúkrunarfræðingur deildarinnar sendir ykkur heim með allt sem þarf fyrir næstu daga. Og veitir ykkur góðar upplýsingar um það sem þið þurfið að kaupa í apóteki.  Sýklalyf, verkjalyf og hægðamýkjandi lyf.

Hjúkrunarfræðingur frá Heimahjúkrun barna kemur tvisvar á dag heim alla þá daga sem eftir eru af legunni. Á morgnana og á kvöldin og viðheldur þeirri hjúkrun sem fram fór á deildinni.  Veitir einnig stuðning og fræðslu. Fylgist vel með þvagmagninu og umbúðunum.

Sá hjúkrunarfræðingur sem kemur á kvöldin blandar lyfin fyrir næsta sólarhring og sjá foreldrar um að gefa drengnum lyfin um munn á þeim tímum sem um ræðir og skrá á skráningarblaðið. Alltaf má hringja í þann hjúkrunarfræðing sem sinnir drengnum þann daginn ef eitthvað er.  

Á næturnar má alltaf hringja í Barnadeildina ef eitthvað er.  Síminn þar er 543-3760.

 

Það sem foreldrar þurfa að passa vel

  • Að drengurinn sé duglegur að drekka. Þannig viðheldur hann góðu flæði um þvaglegginn.
  • Ekki komi brot á þvagslönguna að þvagflæðið í pokann sé óhindrað.
  • Þvagpokinn þarf alltaf að vera fyrir neðan blöðrustað. Passa að komi ekki tog á slöngu.
  • Að bragginn liggi ekki á slöngunni.
  • Hann má ekki leggjast á magann.
  • Gefa honum lyfin sem búið er að taka til kl 9 – 15 – 21.  Geymd í ískáp.
  • Hitamælið drenginn fyrir fyrstu lyfjagjöfina kl 8-9
  • Lgg+, Ab mjólk, Kíwí og vínber, perur allir sætir ávextir hjálpa til við að mýkja hægðirnar.  Acetophilus og góðar trefjar gott að gefa með.
  • Drengurinn þarf að vera rólegur.  Liggja í rúminu eða sitja í góðum stól t.d. Lazy-boy. Alltaf með undirbreiðslu undir rassi.
  • Rassakinnar geta orðið rauðar. Nota gott krem bera á og nudda.
  • Passa að sé ekki mikil brauðmylsna eða eitthvað gróft undir rassi.
  • Halda á honum á salerni og styðja við hann þegar hann þarf að hafa hægðir. Má standa í fæturnar af og til.
  • Fara í kerru/hjólastól x 2-3 yfir daginn. Hengja pokann, þannig að hann sé eins neðarlega og hægt er.
  • Hafa nóg af afþreyjingu.
  • Foreldrar geta leigt hjólastól hjá Stoð Trönuhrauni 8 S. 565-2885,  Kostar 6.000 ein vika.

 

Á degi 9 eða 10 heima er þvagleggur og umbúðir teknar, veldur það smá óþægindum en ekki sársauka. Til að minnka óþægindin er drengnum gefinn verkjastíll um einni klukkustund áður.

Hvernig lítur typpið út?   Typpið kemur venjulegast mjög “krumpað” undan umbúðunum og margir drengir (og jafnvel foreldrar) sem búast við nýju typpi verða fyrir vonbrigðum.  Þetta lagast allt á örfáum dögum. Bjúgur og mar hverfa fljótt Endanlegan árangur og útlit er þó ekki hægt að meta fyllilega fyrr en eftir 2-3 mánuði og er þá komið til eftirlits og flæðið gegnum nýju/breyttu þvagrásina mælt.

Eftir að þvagleggur er tekin þurfa foreldrar að fylgjast vel með því að drengurinn pissi. Við fyrstu þvaglát getur drengurinn fundið fyrir óþægindum sem hverfa síðan þegar á líður.  Mikilvægt er að foreldrar sendi SMS á þann hjúkrunarfræðing sem kom í síðustu heimsókn og láti vita þegar fyrsta bunan er komin í geng.

Við það að liggja í rúmi í 10 daga brenglast stöðuskynjunin aðeins í fyrstu en lagast fljótt.  eðlilegt að drengurinn sé óöruggur með að ganga til að byrja með en þá er mikilvægt að styðja vel við hann á meðan hann nær góðu jafnvægi. Tekur ekki langan tíma að komast í fyrra horf.

 

Algengar spurningar eftir að leggur og umbúðir eru teknar

  • Má hann fara í leikskóla/skóla strax daginn eftir?  

Þegar sárin hafa fengið 10 daga til að gróa getur nánast ekkert gerst eftir það. Því er honum óhætt að fara í leikskólann/skólann.  Eftir að hann er orðin öruggur með að ganga og hreyfa sig, þá má hann gera það sem hann er vanur. Gott þó að hafa hægt um sig fyrstu 2-3 dagana og varast þröngar buxur.

 

  • Þarf hann að halda áfram á sýklalyfjunum?

Það er oftast ekki þörf á því, nema læknir barnsins ráðleggi annað.

 

  • Er eðlilegt að hann finni fyrir sviða fyrst?

Já oftast finna þeir fyrir sting og smá sviða við fyrstu bunu sem minnkar svo smátt og smátt. Engin sviði á að vera næsta dag.

 

  • Hvenær má hann fara í sturtu eða bað?  

Sturta er leyfileg strax eftir að leggur er tekinn en bað í baðkari og sund eftir um viku.

 

Ef einhvað kemur uppá svo sem ef að drengurinn geti ekki pissað eða verkir/sviði við þvaglát getur verið um sýkingu í þvaginu að ræða.  Ef eitthvað gerist eftir lengri tíma (nokkrar vikur frá aðgerð) þarf að hafa í huga að um þrengingu geti verið að ræða. Þá er mikilvægt að koma sem fyrst til viðkomandi skurðlæknis.

Vinsamlegast hafið þá samband við barnadeild 22 E í síma 543-3760.

 

Eftirlit eftir útskrift

Eftir 3 mánuði þarf barnið að koma í flæðismælingu á þvagfærarannsókn á 20-E Verður hringt í ykkur þegar nær dregur og ykkur gefinn tími.

 

Janúar 2005

Endurútgefið 2018

Höfundur:

Björk Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur

Faglegar ráðleggingar:

Kristján Óskarsson, sérfræðingur í skurðlækningum barna.